154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við munum fordæma öll brot á alþjóðalögum sem sannast á þau ríki sem þau fremja og það mun eiga við hér eftir sem hingað til. Bara núna fyrir helgi, þegar tekin var fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum ríkari aðkoma Palestínu innan Sameinuðu þjóðanna, vorum við með, myndi ég segja, mjög skýra atkvæðaskýringu á þessu. Allur þessi fjöldi óbreyttra borgara og barna sem hafa látist er auðvitað gríðarlega alvarlegt og hryllilegt og ekki hægt að réttlæta. Ísrael hefur þennan skýra rétt til sjálfsvarnar en alls ekki ótakmarkaðan og við höfum ítrekað krafist þess að farið sé að lögum og að ríkið haldi sig innan þess ramma. Auðvitað er verkefnið gríðarlega flókið og stórt þegar búið er að (Forseti hringir.) sprengja allt sem búið er að sprengja. Ég viðurkenni það alveg að maður fyllist vanmætti við tilhugsunina um hvernig eigi að vera hægt að ná tveggja ríkja lausn þegar viljinn virðist ekki einu sinni vera nægur (Forseti hringir.) beggja megin borðs.